Greining og meðferð

Greining
Hjá SÓL sinnum við greiningum helstu þroska- og geðraskana barna og ungmenna. Greining sálfræðinga byggist á markvissri athugun á hegðun, líðan og þroska barna og ungmenna. Stuðst er við stöðluð greindarpróf, stöðluð þroskapróf og aðrar staðlaðar athuganir á hegðun og líðan. Einnig er farið ítarlega í þroskasögu og leitað eftir upplýsingum frá foreldrum og kennurum, eins og við á. Á þann hátt fæst góð heildarmynd og oft skýrar vísbendingar um styrkleika og veikleika barnsins. Greining á ávallt að vera til gagns og nýtast til þess að skilja, kenna, hlúa að, auka lífsgæði og finna styrkleika og veikleika. Greining veitir upplýsingar um stöðu einstaklingsins í dag og getur gefið góð svör um hvaða leiðir í uppeldi og kennslu eru vænlegastar. Mikilvægt er að hafa í huga að öll erum við ólík og fjölbreytileiki er nauðsynlegur í umhverfi okkar. Í greiningarferli á ávallt að hafa lífsgæði barnsins í huga. Ef frávik í þroska, líðan eða hegðun barnsins hafa neikvæð áhrif á lífsgæði þess, er enn mikilvægara að bregðast við á eins uppbyggilegan hátt og unnt er.

 

Meðferð
Hjá SÓL er lögð áhersla á að veita faglega, gagnreynda meðferð í samræmi við klínískar leiðbeiningar hverju sinni. Hjá okkur er meðal annars boðið upp á einstaklingsmeðferð/-viðtöl og færninámskeið auk fræðslu og ráðgjafar til foreldra og skóla. Fylgst er með framgangi meðferðar með fyrirlögn viðeigandi skimunarlista.

 

Próf & mælitæki

 • Greindarpróf Wechslers fyrir börn 3 – 7 ára (WPPSI-RIS)
  WPPSI-RIS prófið er notað til að meta greindarþroska barna á aldrinum 2,11 til 7,3 ára. Heildartala greindar lýsir almennri hæfni á vitsmunasviði en hún er reiknuð út frá frammistöðu á tíu undirprófum sem hver og ein metur mikilvægan hluta almennrar greindar. Prófið skiptist í munnlegan og verklegan hluta. Í verklegum hluta reynir á rökhugsun, samhæfingu hugar og handa og sjónræna úrvinnslu. Í munnlegum hluta reynir m.a. á málskilning, tjáningu og félagslegan skilning. Meðaltal fyrir hvern aldursflokk er 100 en frammistaða flestra liggur á milli 85 og 115. Á hverju undirprófi eru reiknaðar mælitölur, þar er meðaltalið 10 en frammistaða flestra liggur á milli 7 og 13. Stuðst er við íslenska stöðlun, sem þýðir að frammistaða barnsins er borin saman við íslenska jafnaldra.

 

 • Greindarpróf Wechslers fyrir börn 7 – 16 ára
  WISC-IVIS er notað til að meta vitsmunaþroska barna á aldrinum 6 til 16 ára. Heildartala greindar lýsir almennri hæfni á vitsmunasviði en hún er reiknuð út frá frammistöðu á fjórum prófhlutum sem hver um sig metur mikilvægan hluta almennrar greindar. Málstarf byggir á munnlegum undirprófum þar sem reynir á rökhugsun, málskilning og máltjáningu við úrlausn verkefna. Skynhugsun byggir á undirprófum sem reyna á rökhugsun og sjónræna úrvinnslu. Prófhlutinn vinnsluminni byggir á undirprófum sem reyna á minni og einbeitingu þegar unnið er með heyrnrænar upplýsingar. Vinnsluhraði byggir á undirprófum sem reyna á vinnsluhraða, samhæfingu hugar og handa og sjónræna úrvinnslu. Meðaltal fyrir hvern aldursflokk er 100, frammistaða flestra liggur á milli 85 og 115. Á hverju undirprófi eru reiknaðar mælitölur, þar er meðaltalið 10 en frammistaða flestra liggur á milli 7 og 13. Miðað er við íslenska stöðlun.

 

 • Bayley-þroskapróf fyrir börn
  Bayley-III metur vitsmuna-, mál- og hreyfiþroska barna sem eru yngri en 3:6 ára. Með því að leggja fyrir verkefni er metið hvernig barninu gengur að skilja samhengi hluta og vinna úr ýmsum upplýsingum og skilja mál og tjá sig. Geta barnsins er borin saman við getu bandarískra jafnaldra.

 

 • Íslenski þroskalistinn
  Íslenski þroskalistinn er frumsaminn hérlendis og ætlað að meta þroska þriggja til sex ára barna með því að afla upplýsinga frá mæðrum þeirra. Listinn skiptist í hreyfi- og málhluta, í mati á hreyfiþroska eru þrír undirþættir lagðir til grunna, þ.e. gróf- og fínhreyfifærni ásamt sjálfsbjörg. Í mati á málþroska liggja einnig þrír undirþættir til grunna*, þ.e. málskilningur og tjáning, ásamt námi. Saman gefa þessir þættir heildarþroskatölu, og á kvarða yfir mælitölur er meðalfærni hvers aldurshóps 100, en meðalgeta flestra liggur á bilinu 85-115.

 

 • Íslenski smábarnalistinn
  Íslenski smábarnalistinn er frumsaminn hérlendis og ætlað að meta þroska barna á aldrinum 12-38 mánaða, með því að afla upplýsinga frá mæðrum þeirra. Listinn skiptist í hreyfi- og málhluta, í mati á hreyfiþroska eru þrír undirþættir lagðir til grunna, þ.e. gróf- og fínhreyfifærni ásamt sjálfsbjörg. Í mati á málþroska liggja einnig þrír undirþættir til grunna, þ.e. málskilningur og tjáning, ásamt námi. Saman gefa þessir þættir heildarþroskatölu, og á kvarða yfir mælitölur er meðalfærni hvers aldurshóps 100, en meðalgeta flestra liggur á bilinu 85-115.

 

 • Vineland Adaptive Behaviour Scales – Mat á aðlögunarfærni
  VABS-II, er staðalbundið matstæki sem nýtist til að meta aðlögunarfærni barna og unglinga. Aðlögunarfærni nær yfir tiltekna hegðun sem einstaklingur þarf að búa yfir til að eiga samskipti við aðra og leysa ýmis viðfangsefni í daglegu lífi. VABS-II er hálfbundið viðtal þar sem upplýsinga er aflað hjá foreldrum. Við úrvinnslu er tekið mið af aldri barnsins og færni borin saman við frammistöðu jafnaldra. Matstækið skiptist í fjögur meginsvið: Boðskipti, athafnir daglegs lífs, félagslega aðlögun og hreyfifærni en það síðastnefnda er einungis metið hjá börnum yngri en sjö ára. Að auki er gefinn kostur á að afla upplýsinga um frávik í hegðun. Viðmið eru bandarísk.

 

 • Autism Diagnostic Observation Schedule
  ADOS-2 eining 3 er staðlað matstæki, sem byggist á beinni athugun á hegðun þegar grunur er um röskun á einhverfurófi. Athugunin beinist að tjáskiptum, félagslegum samskiptum og leik eða skapandi notkun hluta. ADOS-2 felur í sér verkefni sem gera prófanda kleift að athuga hegðun sem hefur verið skilgreind sem mikilvæg í tengslum við greiningu raskana á einhverfurófinu hjá einstaklingum á mismunandi aldri og þroskastigi. Eining 3 er ætluð einstaklingum sem tjá sig í löngum setningum reiprennandi. Áherslan er m.a. á leik, samræður, félagstilfinningalegar spurningar og atriði sem lúta að daglegu lífi auk tiltekinna verkefna eins og t.d. að endursegja stutta sögu, að lýsa athöfn og að búa til sögu með hlutum.

 

 • Autism Diagnostic Observation Schedule
  ADOS-2 eining 4 er staðlað matstæki sem byggist á beinni athugun á hegðun þegar grunur er um röskun á einhverfurófi. Athugunin beinist að tjáskiptum, félagslegum samskiptum og leik eða skapandi notkun hluta. ADOS-2 felur í sér verkefni sem gera prófanda kleift að athuga hegðun sem hefur verið skilgreind sem mikilvæg í tengslum við greiningu raskana á einhverfurófinu hjá einstaklingum á mismunandi aldri og þroskastigi. Eining 4 er ætluð unglingum og fullorðnum einstaklingum sem tjá sig í löngum setningum reiprennandi. Áherslan er m.a. á samræður, félagstilfinningalegar spurningar og atriði sem lúta að daglegu lífi auk tiltekinna verkefna eins og t.d. að endursegja stutta sögu, að lýsa athöfn og að búa til sögu með hlutum.

 

 • Kiddie-Sads-Present and Lifetime Version (K-SADS-PL)
  K-SADS er hálfstaðlað greiningarviðtal, byggt á greiningarviðmiðum DSM-IV. Viðtalið er notað til greiningar á hegðunar- og geðröskunum hjá börnum og unglingum. Því er einkum ætlað að greina ofvirkniröskun en jafnframt skima og skoða nánar aðra erfiðleika tengda hegðun og líðan.

 

 • Ofvirknikvarði (ADHD Rating Scale)
  Með ADHD-listanum eru metin einkenni um ofvirkni og athyglisbrest. Þau einkenni sem spurt er um samsvara alþjóðlegum greiningarviðmiðunum. Svör foreldra og kennara eru borin saman við það sem vitað er um svör foreldra og kennara íslenskra og bandarískra barna og unglinga á aldrinum 4-16 ára.

 

 • Spurningalisti um atferli barna (CBCL og TRF)
  Listarnir gefa vísbendingar um ýmis einkenni í dagfari barna sem tengist líðan þeirra og hegðun, svo sem hlédrægni, depurð, erfiðri hegðun og einbeitingarerfiðleikum. Foreldrar (CBCL) og kennarar (TRF) svara spurningalistunum. Svörin eru borin saman við svör foreldra bandarískra barna og kennara. Á YSR gefst börnum 11-18 ára kostur á að svara sjálf sambærilegum lista, svör þeirra eru einnig borin saman við svör bandarískra jafnaldra. Listarnir eru ekki greiningartæki en geta gefið góða mynd af hegðun og líðan barnsins eða unglingsins.

 

 • Spurningar um styrk og vanda (SDQ)
  SDQ-listinn gefur vísbendingar um hegðun, tilfinningar og félagsleg samskipti barna, fimm ára og eldri. Svör fullorðinna er þekkja barnið vel eru borin saman við svör foreldra og kennara íslenskra barna. Gefin eru heildarstig, auk þess sem stig fást fyrir undirkvarða sem taka til ofvirkni, erfiðleika í tilfinningum og samskiptum við jafnaldra, auk hæfni í félagslegum samskiptum.

 

 • Childhood Autism Spectrum Test (CAST)
  CAST metur hegðunareinkenni einhverfurófs hjá börnum á aldrinum 4-11 ára. Foreldrar og kennarar svara listanum, viðmiðunarmörk liggja við 15 stig.

 

 • Childhood Autism Rating Scale (CARS)
  CARS er matstæki sem ætlað er að skima fyrir frávikum á einhverfurófi, við fyrirlögn er rætt við kennara og foreldra, einnig er fylgst með barninu við ýmsar athafnir í skóla eða á heimili. Oft er þá stuðst við upptökur af barninu sem kennarar eða foreldrar gera. Viðmiðunarmörk listans liggja við um 30 stig.

 

 • Social Communication Questionnaire (SCQ)
  SCQ er spurningarlisti sem metur félagslega svörun hjá einstaklingum frá 4 ára. Foreldrar og kennarar geta svarað spurningalistanum, en listinn er þó oft lagður fyrir í viðtali við foreldra. Viðmiðunarmörk listans liggja við um 15 stig.

 

 • Spurningalisti um depurð (CDI)
  CDI-matslistinn er notaður við mat á depurðarvanda barna og unglinga á aldrinum 7-17 ára. Börnin svara listanum sjálf sem beinist að því að skoða hvernig þeim hefur liðið síðustu tvær vikurnar. Spurt um fimm meginþætti sem helst einkenna þunglyndi: Neikvætt skap, samskiptavandamál, vanvirkni, leiða og neikvætt sjálfsmat.

 

 • Beck’s Youth Inventory (BYI)
  BYI-sjálfsmatslistanum er ætlað að skoða ýmsa þætti sem tengjast geðheilbrigði barna og unglinga á aldrinum 7-18 ára. Hann er samansettur af fimm kvörðum; depurð, kvíða, reiði, ýgi og sjálfsmynd. Hver kvarði inniheldur 20 spurningar.

 

 • Spurningalisti um fælni og kvíða (MASC)
  MASC sjálfsmatslistinn metur kvíðaeinkenni barna og ungmenna á aldrinum 8-19 ára. Hann er samansettur af fjórum kvörðum: Líkamleg einkenni (streita og líkamleg einkenni), Forðun (fullkomnunarárátta og bjargráð), Félagsfælni (frammistöðukvíði og ótti við niðurlægingu) og Aðskilnaður/felmtur (skyndileg ofsahræðsla eða hræðsla við aðskilnað/að vera einn).