Hjá SÓL sinnum við greiningum helstu þroska- og geðraskana barna og ungmenna.
Greining sálfræðinga byggist á markvissri athugun á hegðun, líðan og þroska barna og ungmenna. Stuðst er við stöðluð greindarpróf, stöðluð þroskapróf og aðrar staðlaðar athuganir á hegðun og líðan. Einnig er farið ítarlega í þroskasögu og leitað eftir upplýsingum frá foreldrum og kennurum, eins og við á. Á þann hátt fæst góð heildarmynd og oft skýrar vísbendingar um styrkleika og veikleika barnsins.
Greining á ávallt að vera til gagns og nýtast til þess að skilja, kenna, hlúa að, auka lífsgæði og finna styrkleika og veikleika. Greining veitir upplýsingar um stöðu einstaklingsins í dag og getur gefið góð svör um hvaða leiðir í uppeldi og kennslu eru vænlegastar.
Mikilvægt er að hafa í huga að öll erum við ólík og fjölbreytileiki er nauðsynlegur í umhverfi okkar. Í greiningarferli á ávallt að hafa lífsgæði barnsins í huga. Ef frávik í þroska, líðan eða hegðun barnsins hafa neikvæð áhrif á lífsgæði þess, er enn mikilvægara að bregðast við á eins uppbyggilegan hátt og unnt er.